Sterkari miðherji en í fyrra

Maciej Baginski og Mario Matasovic í leiknum gegn ÍR í …
Maciej Baginski og Mario Matasovic í leiknum gegn ÍR í kvöld. Til varnar er Sæþór Elmar Kristjánsson. mbl.is/Hari

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, virðist vera með sitt lið á ágætum stað nú þegar Dominos-deildin í körfuknattleik er nýhafin. Njarðvík vann ÍR 85:72 á útivelli í 1. umferðinni í kvöld. 

„Númer eitt, tvö og þrjú er að ná í sigur í fyrsta leik í mótinu. Margt gott má finna í okkar leik en einnig er margt sem við þurfum að laga. Það er svo sem eðlilegt á þessum árstíma. Mér fannst við hafa ágæta stjórn á leiknum allan tímann. Við töpuðum boltanum allt of oft og þeir náðu of mörgum sóknarfráköstum. En þeir eru duglegir og erfiðir í þeirri baráttu. Við náðum alla vega að spila þannig vörn að skotnýting þeirra var ekki góð. Að sama skapi hittu góðar skyttur hjá okkur ekki úr mörgum opnum færum en við eigum það bara inni. Ég þarf ekki að gráta það fyrst við unnum leikinn,“ sagði Einar Árni þegar mbl.is tók hann tali. 

Njarðvíkingar misstu í sumar tvo atkvæðamikla leikmenn því Elvar Már Friðriksson fór til Svíþjóðar og Jeb Ivey er hættur. Hvernig breytist leikur Njarðvíkurliðsins þegar þeir eru horfnir á braut? 

„Þeir eru báðir hágæðaleikstjórnendur og skorarar. Eðlilega tóku þeir mikið til sín. Nú eru kannski fleiri sem leggja af mörkum. Elvaldas er reyndur leikstjórnandi sem hefur leitt góða deild í Evrópu í stigaskori og leitt góða deild í Evrópu í stoðsendingum. Hann er duglegur að finna samherja sína en er einnig góð skytta. Hann er svolítið öðruvísi leikmaður en Elvar og Ivey. Við erum auk þess að vinna með hluti sem við erum ekki vanir að gera. Við vorum eiginlega aldrei með miðherja í fyrra sem gat fengið boltann með bakið í körfuna og gert usla. Við þurfum að venjast því að nýta miðherjann okkar Wayne Martin sem best. Það sýndi sig á undirbúningstímabilinu að við eigum vinnu fyrir höndum í kringum það en við nýttum hann vel í kvöld. Hann er einnig viljugur að gefa boltann frá sér ef andstæðingarnir fara tveir á hann. Við eigum eftir að eflast hvað þetta varðar,“ sagði Einar enn fremur. 

Einar Árni gefur skipanir á hliðarlínunni í kvöld.
Einar Árni gefur skipanir á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is / Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert