„Við reynum að bæta okkur“

Collin Pryor lætur vaða í leiknum í kvöld.
Collin Pryor lætur vaða í leiknum í kvöld. mbl.is/ Hari

Collin Pryor var sprækur í sínum fyrsta leik fyrir ÍR í kvöld en liðið mátti þola tap fyrir Njarðvík í Seljaskólanum 72:85 í 1. umferð Dominos-deildarinnar í körfuknattleik. 

„Á heildina litið sýndi liðið bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar í kvöld. Við þurfum halda okkar vinnu áfram. Mér fannst margt jákvætt í okkar leik. Við vissum fyrir tímabilið að byrjunin gæti orðið erfið og við þurfum að vera þolinmóðir. Upp komu stöður í leiknum þar sem við hefðum getað minnkað muninn meira en við gerðum. Okkur tókst ekki að nýta þau tækifæri en kannski er ekki við því að búast strax í fyrsta leik. Það mun taka tíma fyrir liðið að nýta þau tækifæri sem bjóðast,“ sagði Collin sem í sumar hafði félagaskipti úr Stjörnunni í ÍR. 

Eins og fram hefur komið urðu gífurlega miklar breytingar á leikmannahópi ÍR í sumar en sex lykilmenn eru horfnir á braut en einnig eru margir leikmenn komnir í þeirra stað eins og Collin sem dæmi. Það mun væntanlega taka nokkrar vikur fyrir liðið að spila sig saman? 

„Við höfum allir verið saman í mánuð eða svo og erum kannski aðeins á eftir áætlun en við notum það ekki sem afsökun. Við reynum að bæta okkur og leggja okkur fram ásamt því að kenna ungu leikmönnunum í leiðinni,“ sagði Collin í samtali við mbl.is en hann skoraði 14 stig og tók 7 fráköst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert