Kynþáttaníð á aldrei að líðast

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, til hægri.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, til hægri. mbl.is/Hari

„Hvorki ég né Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, varaformaður KKÍ, urðum vör við eitthvað óeðlilegt í stúkunni á Hornafirði á föstudaginn síðasta,“ sagði Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KKÍ í Laugardalnum í dag.  Hannes og og Guðbjörg voru bæði á Hornafirði á föstudaginn síðasta til að fylgjast með leik Sindra og Hamars í fyrstu umferð 1. deildar karla en Kinu Rochford, leikmaður Hamars, varð fyrir kynþáttaníð í leiknum.

„Við vorum stödd á Hornafirði til þess að heimsækja körfuknattleiksdeild Sindra. Við erum í fundarherferð með félögunum okkar og við funduðum með forráðamönnum Sindra bæði fyrir og eftir leik um síðustu helgi. Við urðum ekki vör við þetta í íþróttahúsinu sjálfu og við fréttum fyrst af málinu skömmu eftir leik. Við erum stödd á fundi með forráðamönnum Sindra og þá koma fulltrúar félagsins til okkar sem tjá okkur að það að það sé í umræðunni að kynþáttaníð hafi átt sér stað í leik Sindra og Hamars. Svo það komi skýrt fram þá er ég ekki að segja að það hafi ekkert átt sér stað, þó svo að ég hafi ekki orðið vitni að því. Kinu upplifir kynþáttaníð og ég ætla mér ekki að taka neitt af honum. Það verður samt að koma fram að ef þessi ókvæðisorð hefðu verið hrópuð að honum yfir alla stúkuna á Hornafirði þá hefði ég heyrt það og Guðbjörg líka. Að sjálfsögðu hefðum við látið vísa viðkomandi út úr húsinu ef við hefðum heyrt eitthvað í þá áttina sem á að hafa verið sagt við leikmanninn því kynþáttaníð eða hvers kyns níð af einhverju tag á aldrei að líðast. Ég hef sagt það margoft áður og segi það enn, við erum öll fyrirmyndir, sama hvort við séum áhorfendur, forráðamenn í félögum eða foreldar. Við verðum að passa okkur á því hvað við látum út úr okkur í stúkunni en ég eins og ég kom inn á áðan þá urðum við ekki vör við neitt sem við kemur kynþáttaníð í stúkunni. Þess vegna kom þetta okkur mikið á óvart þegar við heyrðumst fyrst af atvikinu eftir leik.“

Kinu Rochford varð fyrir kynþáttaníð á Höfn í Hornafirði á …
Kinu Rochford varð fyrir kynþáttaníð á Höfn í Hornafirði á föstudaginn síðasta en málið hefur vakið upp hörð viðbrögð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vel tekið á málinu á Hornafirði

Strax á föstudeginum sendu forráðamenn körfuknattleiksdeildar Sindra frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem Rochford var meðal annars beðinn afsökunar.

„Sindramenn tóku strax mjög vel á málinu á föstudagskvöldinu og fóru í málið af krafti. Þessi einstaklingur sem er grunaður um að hafa verið með kynþáttaníð í garð Rochford er undir lögaldri. Það þarf þess vegna að hafa foreldrana viðstadda þegar að rætt verður við hann um atvikið. Fjölskyldan er af erlendu bergi broti og aðilinn sem er undir lögaldri talar ekki 100% íslensku. Foreldrar hans tala ekki íslensku og það þarf þess vegna túlk til þess að ræða við hann og fjölskyldu hans. Það hefur verið rætt við aðila sem voru þarna nærri og samkvæmt þeim þá heyrðust ljót orð í stúkunni en ekki kynþáttaníð. Sindri mun funda með foreldrum drengsins á næstu dögum og þá hefur félagið einnig haft samband við bæði heimili og skóla í bænum. Félagið ætlar að vera með fræðslu fyrir krakkana í bænum sem snúa að þessum málefnum og það hafa því allir brugðist hárrétt við í þessum aðstæðum.“

Ítarlegt viðtal við Hannes S. Jónsson um málið á Höfn í Hornafirði og eftirmála þess mun birtast á íþróttasíðum Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert