Lítur ógeðslega flott út

Jón Halldór Eðvaldsson ræðir við sitt lið.
Jón Halldór Eðvaldsson ræðir við sitt lið. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

„Ég var nokkuð rólegur. Forskotið var orðið það stórt að ég var rólegur,“ sagði kátur Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir 65:54-sigur á Haukum í 2. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í kvöld. 

Keflavík náði mest 28 stiga forskoti, en Haukar söxuðu verulega á í seinni hálfleik. Sigurinn var hins vegar aldrei í hættu. 

„Ákefðin hjá okkur skilaði þessu í byrjun. Við spiluðum stórkostlega vörn frá fyrstu mínútu og þangað til flautan gall í hálfleik. Það slaknaði aðeins á þessu í seinni hálfleik, enda er bara október,“ sagði Jón, sem var ekki viss hvort þreyta hafi sagt til sín í seinni hálfleik, þar sem mikil orka fór í leik liðsins í fyrri hálfleik. 

„Það á ekki að vera, en það getur vel verið. Mögulega hefði ég átt að rúlla þessu hraðar til að hafa ferskar fætur inni á vellinum allan tímann, en þetta var allt í góðu,“ sagði Jón, sem er gríðarlega sáttur við það vinnuumhverfi sem hann vinnur við í Keflavík. 

„Ég er í sjöunda himni. Ég er með ótrúlega flottan hóp af ótrúlega duglegum krökkum og einni fullorðinni konu. Ég er með frábæran erlendan leikmann, ótrúlega flottan aðstoðarþjálfara og frábært lið í kringum okkur. Þetta lítur ógeðslega flott út.“

Keflavík missti nánast heilt byrjunarlið frá því síðasta vetur, en hingað til hefur liðið spilað mjög vel. Keflavík var nálægt því að vinna óvæntan sigur á KR í fyrsta leik og var svo sannfærandi stóran hluta leiksins í kvöld. 

„Þetta er að ganga fyrr en ég átti von á, en ekki endilega betur. Ég átti von á þessu eftir tvo mánuði eða svo. Þetta er á pari við það sem ég átti von á. Ég þekki þessar stelpur allar. Ég er búinn að fylgjast með þeim frá því þær voru í minni bolta. Ég veit hvað þær geta og ég veit hvað er hægt að ýta þeim langt. Mögulega reynum við að ýta þeim aðeins lengra og athuga hvað gerist,“ sagði Jón Halldór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert