NBA upp á kant við Kínverja

Kínverskur körfuboltamaður með bol merktan LeBron James fyrir utan hótel …
Kínverskur körfuboltamaður með bol merktan LeBron James fyrir utan hótel Los Angeles Lakers í Shanghai í morgun. AFP

Forráðamenn NBA-deildarinnar í körfuknattleik hafa aflýst fréttamannafundi sem halda átti í Shanghai í dag vegna viðureignar Brooklyn Nets og Los Angeles Lakers sem fram á að fara í kínversku borginni á morgun.

Mikil spenna hafði myndast vegna fundarins en NBA-deildin virðist vera komin upp á kant við kínversku ríkisstjórnina eftir að framkvæmdastjóri Houston Rockets, Daryl Morey, setti stuðningsyfirlýsingu til mótmælenda í Hong Kong á Twitter síðasta föstudag.

Þótt Morey hefði fljótlega eytt tístinu urðu hörð viðbrögð við því innan kínverska stjórnkerfisins sem hefur haldið því fram að mótmælin í Hong Kong undanfarnar vikur séu studd dyggilega af erlendum aðilum.

Í Bandaríkjunum voru hins vegar NBA-deildin og stjórnandi hennar, Adam Silver, gagnrýnd fyrir að verja ekki rétt Moreys til að tjá sig. Silver sendi út slíka yfirlýsingu í gær, við litla hrifningu kínverskra stjórnvalda, sem og styrktaraðila NBA-deildarinnar í Kína.

Beðið var með eftirvæntingu eftir fréttamannafundinum þar sem margir voru spenntir að heyra hvað LeBron James, framherji Lakers og einhver besti körfuboltamaður heims um árabil, hefði að segja um málið. Hann er þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum og ræða af ástríðu um ýmis þjóðfélagsmál sem eru honum hugleikin.

Lakers og Nets eiga að mætast í Shanghai á morgun og aftur á laugardaginn og ýmiss konar viðburðir höfðu verið settir upp í tengslum við leikina, en þeim hefur einnig verið aflýst. Leikmenn beggja liða áttu að hitta kínverska körfuboltaáhugamenn ásamt þekktu fólki úr kínversku þjóðlífi.

Íþróttasamband Shanghai sagði í yfirlýsingu að skemmtikvöldi stuðningsmanna hefði verið aflýst vegna ósæmilegra ummæla Daryls Morey og Adams Silver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert