Vorum ekki að sýna neitt

Lovísa Björt sækir á Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur í liði Keflavíkur …
Lovísa Björt sækir á Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur í liði Keflavíkur í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við fórum inn í fyrsta og annan leikhluta hálfdauðar,“ sagði svekkt Lovísa Björt Henningsdóttir í samtali við mbl.is eftir 54:65-tap Hauka gegn Keflavík í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Munurinn varð mestur 28 stig, en Keflavík saxaði á forskotið í seinni hálfleik. 

„Við vorum ekki að sýna neitt, börðumst ekki og það var engin gleði í þessu og ekkert í gangi. Við vitum að við getum mikið betur. Við getum barist og unnið Keflavík. Við töluðum um það í hálfleik og komum ákveðnar inn í þriðja leikhluta.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að líta á. Þetta er rétt að byrja og við vitum kannski lítið inn í hvað við erum að fara í svona leikjum. Það er engin afsökun og við verðum að horfa á hvað við erum að gera vitlaust og koma mikið sterkari í frá byrjun í næsta leik. Þú vinnur ekki leiki ef þú byrjar í seinni hálfleik.“

Lovísa var sáttari við seinni hálfleikinn sem Haukar unnu með tíu stigum. 

„Við fórum að hafa smá stolt í vörninni. Við gerðum ekkert í vörninni í fyrri hálfleik. Við leyfðum þeim að fara fram hjá okkur eins og ekkert væri og gáfum þeim þetta. Við verðum að gera mikið betra en þetta ef við ætlum okkur þriðja eða fjórða sæti í deildinni.“

Lovísa átti sjálf stórleik og skoraði 31 stig og tók átta fráköst. 

„Auðvitað er það jákvætt að skora yfir 30 stig, en mér er eiginlega sama um það á meðan við náum ekki sigri. Þá breyta 30, 40 eða 50 stig ekki neinu. Við þurfum allar að koma saman inn í leikinn og vinna hann saman. 30 stig gerir ekki neitt ef við töpum,“ sagði Lovísa. 

mbl.is