Annar sigur Keflvíkinga

Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 15 stig fyrir Keflvíkinga í kvöld.
Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 15 stig fyrir Keflvíkinga í kvöld. mbl.is/Hari

Keflvíkingar höfðu betur gegn Grindvíkingum 96:89 í 2. umferð Dominos-deildarinnar í körfuknattleik í Grindavík í kvöld.

Keflvíkingar voru sjö stigum yfir eftir fyrri hálfleikinn, 47:40, og munurinn var fimm stig, 67:62, þegar þriðja leikhluta lauk. Grindvíkingum tókst að komast yfir, 76:74, þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af fjórða leikhlutanum en Keflvíkingar áttu góðan endasprett og lönduðu nokkuð öruggum sigri.

Keflvíkingar hafa þar með unnið tvo fyrstu leiki sína en Grindvíkingar eru án stiga eftir að hafa tapað fyrir Íslandsmeisturum KR í fyrstu umferðinni.

Dagur Kár Jónsson var stigahæstur í liði Grindvíkinga með 20 stig, Ólafur Ólafsson skoraði 16 og Ingvi Þór Guðmundsson 15.

Dominykas Milka var atkvæðamestur í liði Keflvíkinga með 26 stig og 9 fráköst, Deane Williams skoraði 23 stig og tók 10 fráköst og Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 15 stig og átti 12 stoðsendingar.

mbl.is