Flug Hauka hófst of seint gegn Keflavík

Irena Sól Jónsdóttir átti góðan leik fyrir Keflavík og skoraði …
Irena Sól Jónsdóttir átti góðan leik fyrir Keflavík og skoraði þrjú stig og gaf tvær stoðsendingar. mbl.is/Árni Sæberg

Keflavík er komin á blað í Dominos-deild kvenna í körfubolta eftir 65:54-sigur á útivelli gegn Haukum í 2. umferðinni í gærkvöldi. Keflavík lagði grunninn að sigrinum með stórglæsilegum fyrri hálfleik, en munurinn varð mestur 28 stig í upphafi seinni hálfleiks. Haukar gerðu vel í að gefast ekki upp en munurinn var einfaldlega of mikill.

Vörn Keflavíkur í fyrri hálfleik var ótrúlega sterk. Keflvíkingar pressuðu Hauka út um allan völl og það réðu Haukar illa við. Hvað eftir annað var boltanum kastað beint út af eða í hendurnar á leikmönnum Keflavíkur, sem þökkuðu fyrir sig með stigum hinum megin. Það fer mikil orka í að spila varnarleik á borð við þann sem Keflavík bauð upp á í fyrri hálfleik og virtust leikmenn orðnir þreyttir undir lokin. Það er skiljanlegt eftir tvær umferðir. Takist Keflavík að spila varnarleik líkt og í gær yfir heilan leik þurfa önnur lið að varast Keflvíkinga.

Seairra Barrett, bandarískur leikmaður Hauka, byrjaði á bekknum. Það eru tíðindi þegar lið geyma atvinnumanninn sinn á bekknum, en það varð æ skiljanlegri ákvörðun eftir því sem leið á leikinn og takmörkuð gæði hennar komu ljós. Það er erfitt að sjá að Haukar sætti sig við leikmann eins og Barrett þegar betri leikmenn eru í boði.

Nánari umfjöllun um leik Hauka og Keflavíkur í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert