Sannfærandi sigur meistaranna

Pavel Ermolinskij með boltann í leik Vals og Þórs Þorlákshöfn …
Pavel Ermolinskij með boltann í leik Vals og Þórs Þorlákshöfn í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar KR-inga áttu ekki í neinum vandræðum með að vinna Hauka í 2. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik á heimavelli sínum í Frostaskjóli í kvöld. Meistararnir hafa þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni á tímabilinu.

KR vann 18 stiga sigur gegn Hafnarfjarðarliðinu 102:84. Bræðurnir Jakob Örn og Matthías Orri Sigurðarsynir fóru mikinn í liði KR í kvöld. Jakob skoraði 23 stig og Matthías 22 og þá skoraði Michael Craion 20 stig og tók 9 fráköst. Haukur Óskarsson var atkvæðamestur í liði Haukanna með 24 stig, Gerald Robinson skoraði 19 og Flenard Whitfield 12.

Stjarnan burstaði ÍR á heimavelli 103:74. Kyle Johnson skoraði 21 stig fyrir Stjörnuna og Jamar Bala Akho 20. Hjá ÍR-ingum, sem virðast eiga á brattann að sækja í ár eftir að hafa komist í úrslitarimmuna á síðustu leiktíð, var Georgi Boyanov stigahæstur með 20 stig og Collin Pryor setti niður 18 stig.

Valur hrósaði sigri gegn Þór Þorlákshöfn á Hlíðarenda 87:73. Frank Aron Booker skoraði 25 stig fyrir Val, Christopher Rasheed Jones skoraði 16 og Pavel Ermolinskij var með 15 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert