Komu upp að mér í leit að slagsmálum

Whitfield lék með grímu í kvöld vegna meiðsla sem hann …
Whitfield lék með grímu í kvöld vegna meiðsla sem hann varð fyrir er ráðist var á hann í miðborginni. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Bandaríkjamaðurinn Flenard Whitfield og samherjar hans hjá Haukum höfðu betur gegn Grindavík í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld, 97:93. Whitfield spjallaði við mbl.is eftir leik og var hann sáttur við sigurinn gegn sterku liði. 

„Grindavík er lið sem treystir á áhlaup og liðið er óútreiknanlegt. Þeir treysta á bakverðina sína til að skjóta. Þeir gerðu það vel í dag og svo spiluðu erlendu leikmennirnir þeirra líka vel. Bæði Litháinn og svo Jamal. Þeir verða sterkir þegar líður á tímabilið. Í dag vorum við sterkari,“ sagði Whitfield við mbl.is. 

Haukar voru yfir nánast allan leikinn en Grindavík náði að jafna í lokin. Haukar voru hins vegar sterkari á svellinu þegar mest á reyndi. 

„Við héldum einbeitingu og gerðum þeim erfitt fyrir. Þegar þeir klikkuðu á skotum vorum við snöggir að ná fráköstunum. Það vann leikinn fyrir okkur að lokum því við fengum auðveldar körfur hinum megin í kjölfarið,“ sagði Whitfield sem lenti í villuvandræðum um miðjan leik. 

„Það var svolítið erfitt en ég treysti liðfélögunum mínum. Yngi kom mjög sterkur af bekknum. Hann nýtti mínúturnar sínar vel og skoraði bæði mikilvægar körfur og spilaði góða vörn. Gerald skoraði svo úr mikilvægu skotunum. Það var pirrandi að vera í villuvandræðum en ég er með virkilega góða liðsfélaga.“

Líður eins og allt Ísland viti hvað gerðist

Whitfield spilaði með grímu í leiknum, þar sem ráðist var á hann í miðborg Reykjavíkur á dögunum. Bandaríkjamaðurinn, sem nefbrotnaði í áflogunum, rifjaði upp atvikið. 

„Mér líður eins og allt Ísland viti hvað gerðist. Það kom upp atvik í miðbænum. Það komu menn upp að mér í leit að slagsmálum. Ég var greinilega maðurinn sem þeir vildu takast á við. 

Ég þroskaðist við þetta. Ég hefði auðveldlega getað slegið til baka en ég er atvinnumaður í körfubolta erlendis. Ég er ekki hér til að taka þátt í slagsmálum. Stundum verður maður að taka einu tapi til að vinna marga góða sigra,“ sagði Whitfield. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert