Valskonur völtuðu yfir Keflavík

Sylvía Rún Hálfdanardóttir úr Val og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Keflavík, …
Sylvía Rún Hálfdanardóttir úr Val og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Keflavík, eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar Vals fóru létt með Keflavík þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í fjórðu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 82:51-sigri Valskvenna sem voru með frumkvæðið í leiknum allan tímann.

Valskonur byrjuðu leikinn betur og Hallveig Jónsdóttir kom Valskonum tíu stigum yfir, 14:4, eftir fimm mínútna leik. Katla Rún Garðarsdóttir setti þá niður tvær þriggja stiga körfur með stuttu millibili og þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta leiddu Valskonur með tveimur stigum, 14:12. Valskonur voru hins vegar sterkari á lokamínútunum og leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta, 21:14. Valskonur byrjuðu annan leikhluta af miklum krafti og eftir fimmtán mínútna leik var staðan 33:17, Val í vil. Vörn Keflavíkur mætti ekki til leiks og sóknarleikurinn var afleitur. Daniela Morillo skoraði fyrstu stig Keflavíkur í leikhlutanum eftir sautján mínútna leik af vítalínunni en þetta voru jafnframt hennar fyrstu stig í leiknum. Keflavík tókst að laga stöðuna fyrir hálfleik en Valskonur leiddu engu að síður með 22 stiga mun í hálfleik, 46:24.

Keflavík byrjaði síðari hálfleikinn vel og skoraði fyrstu fjögur stig þriðja leikhluta. Þá vöknuðu Valskonur og Hallveig Jónsdóttir setti niður þriggja stiga körfu eftir 25 mínútna leik og munurinn á liðunum 20 stig, 51:31. Keflavík tókst að minnka forskot Valskvenna niður í sautján stig en í hvert skipti sem Keflavík gerði sig líklega í stórt áhlaup gáfu Valskonur í og þær leiddu með 24 stigum eftir þriðja leikhluta, 62:38. Helena Sverrisdóttir kom Valskonum 26 stigum yfir af vítalínunni í upphafi fjórða leikhluta og etir það varð róðurinn þungur fyrir Keflvíkinga. Guðbjörg Sverrisdóttir setti svo niður þriggja stiga körfu, kom Valskonum 30 stigum yfir, og eftir það var leikurinn svo gott sem búinn.

Kiana Johnson var atkvæðamest í Valsliðinu með tvöfalda tvennu, 23 stig, níu fráköst og tíu stoðsendingar. Þá skoraði Hallveig Jónsdóttir 15 stig og tók fjögur fráköst. Hjá Keflavík var Katla Rún Garðarsdóttir stigahæst með 12 stig og þrjú fráköst. Salbjörg Ragna Sævarsdóttir skoraði 9 stig og tók sjö fráköst. Valskonur eru áfram í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga, 8 stig, en Keflavík er í fjórða sætinu með 4 stig.

Valur - Keflavík 82:51

Origo-höllin Hlíðarenda, Úrvalsdeild kvenna, 23. október 2019.

Gangur leiksins:: 7:2, 15:7, 17:14, 21:17, 30:17, 36:17, 39:19, 46:24, 46:28, 51:31, 54:36, 61:38, 68:38, 75:38, 80:44, 82:51.

Valur: Kiana Johnson 23/9 fráköst/10 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 15/4 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 11/9 fráköst, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 10/6 fráköst, Helena Sverrisdóttir 9/15 fráköst/6 stoðsendingar, Anita Rún Árnadóttir 7, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 5, Dagbjört Samúelsdóttir 2.

Fráköst: 34 í vörn, 14 í sókn.

Keflavík: Katla Rún Garðarsdóttir 12, Eydís Eva Þórisdóttir 9, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 9/7 fráköst/3 varin skot, Daniela Wallen Morillo 8/8 fráköst/8 stolnir, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 7/4 fráköst, Þóranna Kika Hodge-Carr 4/7 fráköst/6 stoðsendingar, Irena Sól Jónsdóttir 2.

Fráköst: 23 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Aðalsteinn Hjartarson, Georgia Olga Kristiansen.

Áhorfendur: 123

Valur 82:51 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert