ÍR-ingar horfa upp á við á ný

Trausti Eiríksson, leikmaður ÍR-inga.
Trausti Eiríksson, leikmaður ÍR-inga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Silfurliði ÍR var spáð þriðja neðsta sæti Dominos-deildar karla í körfubolta fyrir tímabilið. Í ljósi þess að ÍR missti allt byrjunarlið sitt og einn helsta varamanninn í sumar kom það kannski ekki svo á óvart.

Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í vetur hefur liðið hins vegar unnið tvo síðustu leiki og endurheimt landsliðsmiðherjann Sigurð Gunnar Þorsteinsson, og í Breiðholtinu virðast menn nú ekki vera að velta fyrir sér neinni fallbaráttu.

„Það munar svakalega um það fyrir okkur að fá Sigga inn í þetta aftur. Hann kemur með þekkingu á körfubolta, reynslu, gæði og ekki síst stærð sem okkur vantaði,“ segir Trausti Eiríksson, leikmaður ÍR. „Við erum því kannski hættir að horfa niður á við og byrjaðir að horfa meira upp á við. Fyrir tímabilið var takmarkið að ná inn í úrslitakeppnina, alveg eins og í fyrra þegar við sýndum að það skiptir ekki öllu máli hvort maður lendir í 1., 2. eða 8. sæti, og það er áfram markmiðið. Með komu Sigga horfum við 3-4 sætum ofar en áður.“

Þrátt fyrir endurkomu Sigurðar, sem reyndar meiddist í fyrsta leik, er brotthvarfið mikið frá því að ÍR tapaði í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn gegn KR síðasta vor:

„Auðvitað er það svekkjandi, líka vegna þess að það var ekki eins og menn væru að flýja. Menn fengu bara ýmis tækifæri. Hákon fékk boð um að koma út í skóla, Siggi fékk boð um atvinnumennsku [en sneri svo aftur til ÍR], Matthías vildi fá að spila með bróður sínum, Kevin vildi reyna sig í stærri deild, og Sigurkarl hafði lengi ýjað að því að hann ætlaði að fara að hætta. Þetta er auðvitað leiðinlegt og svekkjandi, og maður hugsar um þennan oddaleik og fjórða leik í úrslitunum nánast á hverjum degi, en við höldum áfram. Við erum svolítið að byrja upp á nýtt og það er mikil vinna fram undan, en við reynum að ýta því að þeim sem eru nýir hérna hvað við gerðum í fyrra og hvernig. Við reynum að smita þá af sama hugarfari en einnig að laga okkur að því sem þeir hafa upp á að bjóða,“ segir Trausti.

Sjá greinina um ÍR í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert