Daði og Virbalas í bann - Á ekkert skylt við íþróttalega framkomu

Daði Berg Grétarsson til varnar í leiknum við Þór. Hann …
Daði Berg Grétarsson til varnar í leiknum við Þór. Hann er kominn í þriggja leikja bann. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Daði Berg Grétarsson úr ÍR hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann, og Mantas Virbalas úr Þór Akureyri í eins leiks bann, vegna háttsemi þeirra í leik ÍR og Þórs í Dominos-deild karla í körfubolta föstudaginn 25. október.

Daði fór glæfralega í baráttu við Virbalas um frákast og í kjölfarið sauð upp úr á milli þeirra. Daði sparkaði boltanum tvívegis í Virbalas þar sem sá síðarnefndi lá á gólfinu og í kjölfarið reyndi Virbalas að slá Daða.

Í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar í máli Daða segir að engar athugasemdir hafi borist frá ÍR varðandi málið. Myndbandsupptaka af vef Vísis hafi verið nýtt til að komast að niðurstöðu. Í úrskurðinum segir:

„Af skýrslu til nefndarinnar sem og myndbandsupptöku sem skoðuð var má sjá að hinn kærði sýnir af sér hegðun, sem á ekkert skylt við íþróttalega framkomu. Hinn kærði fer af nokkrum ákafa í frákast sem hann á litla möguleika á að ná. Lendir hann nokkuð harkalega á andstæðing[i] sínum með hendur á öxlum hans. Í kjölfarið heldur hinn kærði áfram að ýta við andstæðing[i] sínum, sem hefur misst jafnvægið og er á leiðinni í gólfið. Þegar andstæðingur hans hefur lent heldur hinn kærði áfram að sýna af sér ógnandi framkomu og sparkar tvisvar sinnum í boltann af stuttu færi svo að hann lendir á andstæðing[i] hans. Í kjölfarið stendur andstæðingur hins kærða upp snögglega og sveiflar höndum í átt að hinum kærða. Kemur liðsfélagi hins kærða inn á milli og róast þá hlutirnir.“

Úrskurðirnir taka gildi í hádeginu á morgun og verður Virbalas því ekki með Þór gegn Keflavík annað kvöld. Daði missir af leik ÍR við Hauka á morgun og einnig af leikjum við Fjölni og Þór Þorlákshöfn.

mbl.is