Fingurkossaflens Emils

Emil Karel Einarsson lengst til hægri í leiknum í kvöld.
Emil Karel Einarsson lengst til hægri í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Emil Karel Einarsson sendi fingurkossa til áhorfenda eftir þriggja stiga körfur sínar í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld en hann skoraði fimm slíkar í átta tilraunum fyrir Þór Þorlákshöfn sem sigraði 91:83. 

Emil var hinn hressasti þegar mbl.is spurði hann út í fingurkossana í kvöld. „Ég fagna hverri einustu körfu sem ég skora enda er skemmtilegt að skjóta boltanum ofan í körfuna. Fingurkossarnir eru fyrir stuðningsmenn okkar. Ég elska stuðningsmennina og hef gaman að því að virkja þá. Þetta er eitthvað sem byrjaði í gríni en þróaðist yfir í að ég geri þetta þegar ég set niður þriggja stiga skot,“ sagði Emil en andinn í Þórsliðinu virðist vera mjög góður. 

„Við viljum að okkar einkenni sé fallegur liðsbolti og við séum lið þar sem leikmenn hjálpast að. Mér finnst það skipta öllu máli og er eitthvað sem mun gera okkur að góðu liði. Við þurfum að mæta vel stemmdir í alla leiki því ef við erum ekki 100% þá munum við tapa.“

Þór hefur nú unnið þrjá leiki af síðustu fjórum. „Mér finnst við vera að spila vel og flæðið er gott. Ég get ímyndað mér að erfitt sé að dekka okkur um þessar mundir þegar boltinn gengur svona vel á milli manna. Andstæðingarnir vita aldrei hver það verður sem skorar 20 stig það kvöldið þegar allir ná að snerta boltann. Við erum hamingjusamir. Okkur finnst gaman að spila körfubolta og ég held að það sjáist,“ sagði Emil enn fremur við mbl.is. 

mbl.is