Harden jók á raunir Golden State

James Harden hefur skorað úr 13 af 32 þristum í …
James Harden hefur skorað úr 13 af 32 þristum í síðustu tveimur leikjum, eftir að hafa aðeins hitt úr 17 af 79 í fyrstu sex leikjum tímabilsins. AFP

Eftir þrjá meistaratitla á síðustu fimm leiktíðum, og að hafa komist í úrslit NBA-deildarinnar í körfubolta í vor, er lið Golden State Warriors eitt það neðsta í vesturdeildinni í vetur.

Golden State tapaði sínum sjötta leik á leiktíðinni í nótt þegar James Harden og félagar í Houston Rockets unnu 129:112-sigur í viðureign liðanna. Golden State er ekki svipur hjá sjón miðað við liðið sem fór í úrslit á síðustu leiktíð en Stephen Curry er handarbrotinn, Klay Thompson sleit krossband í hné og verður varla með á leiktíðinni og Kevin Durant er farinn. Golden State saknaði einnig D'Angelo Russell og Draymond Green vegna minni háttar meiðsla í nótt.

„Vonandi komast þessir menn aftur út á völl sem fyrst. Svona er deildin. Menn meiðast. Við glímdum við svona vandamál fyrir fáeinum árum svo þetta er ekkert nýtt,“ sagði Harden sem skoraði 36 stig og átti 13 stoðsendingar í nótt.

Úrslit næturinnar:
Indiana - Washingon 121:106
Houston - Golden State 129:112
Atlanta - Chicago 93:113
Memphis - Minnesota 137:121
Detroit - New York 122:102
Toronto - Sacramento 124:120
Dallas - Orlando 107:106
LA Clippers - Milwaukee 124:129
Utah - Philadelphia 106:104

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert