Tómas með Fjölni út tímabilið

Tómas Heiðar Tómasson í leik með Stjörnunni þegar hann lék …
Tómas Heiðar Tómasson í leik með Stjörnunni þegar hann lék síðast í úrvalsdeildinni 2016-2017. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tómas Heiðar Tómasson snéri aftur á völlinn með uppeldisfélagi sínu Fjölni eftir tveggja ára pásu þegar liðið tapaði fyrir Þór Þorlákshöfn 83:91 í Dominos-deild karla í körfuknattleik í Grafarvoginum í kvöld. 

„Þeir töluðu við mig fyrir einni og hálfri viku síðan. Við vorum fljótir að tala saman og ég ætla að klára tímabilið með Fjölni. Ég kem inn í þetta af fullum krafti,“ sagði Tómas sem síðast lék í deildinni vorið 2017 með Stjörnunni. 

Hann segist ekki hafa fundið sérstaklega fyrir söknuði þegar hann hættur að spila. „Ég fann ekki fyrir neinni löngun til að byrja aftur fyrr en að Fjölnismenn höfðu samband. Ég var fljótur að hugsa minn gang og var til í þetta,“ sagði Tómas sem tók þátt í leiknum í kvöld. Skoraði hann 2 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Þær tölur koma til með að hækka þegar líður á veturinn. 

Tómas segir að meira búi í Fjölnisliðinu en það hefur sýnt hingað til en liðið er með 2 stig eftir sex leiki. „Já liðið er vel mannað. Fyrir mér er þetta bara stemningsmál. Að koma gíraðir í leik og koma með meiri orku inn á völlinn. Þá er allt hægt í þessari deild,“ sagði Tómas þegar mbl.is spjallaði við hann í Dalhúsum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert