Ég ætlaði ekki að meiða hann

Helgi Rafn Viggósson í leiknum í kvöld.
Helgi Rafn Viggósson í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Maður þarf að vera klár og það voru allir í hópnum klárir, hvort sem það var bekkurinn eða byrjunarliðið. Menn mættu klárir í leikinn,“ sagði kampakátur Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Tindastóls, eftir 92:85-sigur á KR í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld.  

„Við spiluðum mjög vel á móti góðum KR-ingum. Við fylgdum plani og það gekk vel. Mér leið vel í lokin og það er alltaf gaman að ná í sigur hérna,“ sagði Helgi um spennandi lokamínútur. 

KR-ingar pirruðust mjög út í Helga er hann braut illa á Jóni Arnóri Stefánssyni í seinni hálfleik með þeim afleiðingum að Jón fór meiddur af velli og spilaði ekki meira. 

„Þetta er bara eitt brot. Önnur löppin fór einhvern veginn í hann. Það var enginn ásetningur í þessu og ég ætlaði ekki að meiða hann. Ég vona að hann nái sér fljótt,“ sagði Helgi en Tindastóll var að vinna tvo leiki í röð í fyrsta skipti. 

„Þetta kemur í rólegheitum. Við tökum einn leik í einu og næsti leikur er á fimmtudaginn og við mætum klárir í hann,“ sagði Helgi Rafn. 

mbl.is