Helgi og Ingi hnakkrifust lengi eftir leik

Frá leik liðanna í kvöld.
Frá leik liðanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Helgi Rafn Viggósson fyrirliði Tindastóls og Ingi Þór Steinþórsson þjálfari KR, hnakkrifust vel og lengi eftir leik liðanna í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. 

Helgi Rafn braut illa á Jóni Arnóri Stefánssyni í leiknum með þeim afleiðingum að Jón Arnór meiddist og var ekki meira með. Ingi var ekki sáttur með brotið og sakaði Helga um viljandi brot

Í viðtali við Svala Björgvinsson á Stöð 2 sport eftir leik sakaði hann Helga um að viljandi meiða leikmenn. „Mér fannst brotið hans Helga ljótt og ég er búinn að fá nóg af þessu. Þetta er ekki fyrsti maðurinn sem hann meiðir þegar sóknarmaðurinn fer í skot og það á að taka þetta út,“ sagði Ingi. 

Helgi var allt annað en sáttur með ummælin og þá sérstaklega vegna þess að ungur sonur hans heyrði þau. Helgi las Inga pistilinn á leið sinni úr DHL-höllinni og rifust þeir í nokkrar mínútur. Ingi svaraði Helga fullum hálsi og sagði m.a: „Þú ert maður leiksins. Tíu stig, sex fráköst og þú tókst Jón Arnór út, vel gert!“

mbl.is