Vorum slakir og þá gerist svona

Helgi Már Magnússon í baráttu við Jaka Brodnik í kvöld.
Helgi Már Magnússon í baráttu við Jaka Brodnik í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við kláruðum ekki allt of mikið af gefins körfum í lokin,“ sagði svekktur Helgi Már Magnússon, leikmaður KR, eftir 85:92-tap fyrir Tindastóli í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld. 

„Þetta var klaufaskapur í vörninni. Við stigum ekki út og brutum klaufalega á þeim og þeir komust á línuna. Vörnin var allt í lagi stóran hluta leiks en svo klikkuðum við þegar við eigum að landa þessu. Frammistaðan var ekki góð. Þeir eiga ekki að skora 92 stig og við vorum að gera allt of mikið af klaufavillum. Við þurfum að laga þetta.“

KR hefur tapað tveimur leikjum í röð, sem er sjaldgæft þar á bæ, enda KR-ingar meistarar síðustu sex ára. 

„Ég vil ekki tapa. Mér er sama hvort það sé einn eða hvað það er, ég vil ekki tapa. Við eigum ekki að tapa. Við vorum hins vegar slakir og þá gerist svona. Við þurfum að fínstilla okkur og koma okkur í gang. Við höfum ekkert komist í gang í vetur. Við erum bara búnir að vera á einhverju helvítis drolli.

Við þurfum að ná öllum saman og á flug. Kristó er þannig séð nýkominn inn í þetta en það er engin helvítis afsökun. Við eigum að vinna heimaleikina okkar, en við vorum bara slakir og við þurfum að laga það strax,“ sagði Helgi. 

mbl.is