Curry ekki með Golden State fyrr en í lok mars

Stephen Curry.
Stephen Curry. AFP

Stephen Curry, stórstjarna bandaríska körfuboltaliðsins Golden State Warriors, reiknar með að snúa aftur inn á völlinn í lok mars en hann varð fyrir því óláni að handarbrotna í lok október.

„Ég reikna með að byrja að spila aftur með vorinu og líklega þá undir lok mars. Ég hef aldrei brotnað og glímt við meiðsli eins og þessi,“ sagði Curry við fréttamenn en hann er á sínu 11. ári í NBA-deildinni. Hann hefur þrisvar sinnum hampað NBA-meistaratitlinum og í tvígang hefur hann verið valinn besti leikmaður deildarinnar.

Mikið hefur verið um meiðsli í herbúðum Golden State og þau hafa eðlilega komið niður á gengi liðsins en það hefur aðeins unnið tvo af tíu leikjum sínum í deildinni. Liðið er með versta árangur allra liða í deildinni ásamt New York Knicks. Golden State tapaði fyrir Toronto Raptors í úrslitaeinvígi um meistaratitilinn á síðustu leiktíð.

mbl.is