Harden toppaði Jordan

James Harden skoraði 39 stig fyrir Houston Rockets í nótt.
James Harden skoraði 39 stig fyrir Houston Rockets í nótt. AFP

James Harden fór mikinn með liði Houston Rockets þegar liðið hafði betur gegn New Orleans Pelicans 122:116 í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Harden skoraði 39 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Harden hefur þar með skorað 37,3 stig að meðaltali í fyrstu tíu leikjunum á tímabilinu og það er hæsta meðalskor í deildinni eftir tíu leiki í 30 ár. Michael nokkur Jordan átti metið en hann skoraði að meðaltali 36,9 stig í fyrstu tíu leikjunum tímabilið 1988—'89.

„Ég fer bara út á völlinn og spila körfubolta og reyni að vera eins ástríðufullur og ég get,“ sagði Harden við fréttamenn eftir að hann hafði verið upplýstur um stigaskorið. Hann byrjaði tímabilið rólega og skoraði 19 og 29 stig í fyrstu tveimur leikjunum. Í síðustu átta leikjum hefur hann skorað að meðaltali 40,6 stig og mest gegn Memphis, 59. Russell Westbrook skoraði 26 fyrir Houston, sem hefur unnið sjö af tíu leikjum sínum.

Vængbrotið lið Golden State Warriors heldur áfram að tapa en liðið beið lægri hlut fyrir Utah Jazz 122:108. Golden State hefur aðeins unnið tvo af ellefu leikjum sínum. D'Angelo Russell skoraði 33 stig fyrir Golden State en hjá Utah var Rudy Gobert atkvæðamestur með 25 stig.

Kemba Walker skoraði 29 stig og Jaylen Brown 25 í sigri Boston Celtics gegn Dallas. Boston hefur unnið átta af níu leikjum sínum. Luka Doncic var stigahæstur í liði Dallas með 34 stig og þá gaf hann 9 stoðsendingar.

Úrslitin í nótt:

Detroit - Minnesota 114:120
SA Spurs - Memphis 109:113
Boston - Dallas 116:106
New Orleans - Hoston 116:122
LA Clippers - Toronto 98:88
Golden State - Utah 108:122

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert