Spilar með tveimur liðum í mastersnámi

Sara Rún Hinriksdóttir
Sara Rún Hinriksdóttir mbl.is/Hari

„Við ætlum okkur sigur á fimmtudaginn. Hópurinn okkar er ótrúlega flottur,“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir, landsliðskona í körfubolta, við Morgunblaðið á landsliðsæfingu í DHL-höllinni í gær.

Ísland mætir Búlgaríu í Laugardalshöll á fimmtudagskvöld í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2021. Liðið sækir svo Grikkland heim á sunnudag.

Ísland og Búlgaría ættu að vera áþekk að getu og leikurinn á fimmtudag er því afar mikilvægt tækifæri fyrir íslenska liðið til að byrja undankeppnina vel, eftir að hafa tapað öllum sex leikjum sínum í síðustu undankeppni.

Sara er eini leikmaður íslenska hópsins sem spilar með félagsliði utan Íslands en eftir að hafa lokið háskólanámi sínu í Bandaríkjunum síðasta vetur, og tekið þátt í úrslitakeppninni með sínu uppeldisfélagi, Keflavík, fluttist hún til Englands í sumar. Þar spilar þessi 23 ára leikmaður í rauninni með tveimur liðum:

„Ástæðan fyrir því að ég valdi að fara til Englands er að ég er í mastersnámi í háskóla. Þarna spila ég með skólanum mínum, Loughborough-háskólanum, og svo allar helgar með Leicester Riders í bresku úrvalsdeildinni,“ segir Sara sem hefði getað farið í atvinnumennsku sunnar í Evrópu en er ánægð með valið sitt:

„Mig langaði alltaf að fara eitthvað lengra í körfuboltanum eftir háskólann í Bandaríkjunum, til Spánar, Frakklands eða Ítalíu, en ég fékk þetta tækifæri í rosalega flottum skóla auk þess að fá að spila einnig með bæjarliðinu. Ég hef líka áttað mig á því að það er líf eftir körfuboltann. Þegar ég kom svo til Englands kynntist ég okkar sænska þjálfara sem er rosalega flottur, og svo eru þarna stelpur sem hafa verið í atvinnumennsku í Evrópu en hafa svo viljað setjast á skólabekk. Styrkleikinn á liðinu er því rosalega góður og körfuboltinn í bresku úrvalsdeildinni hefur komið mér þvílíkt á óvart. Mér finnst hann svipaður og hér heima en þó aðeins betri. Þetta er mjög skemmtilegt og ég er rosalega ánægð með mitt val,“ segir Sara.

Sjá greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »