„Þær voru ágengar“

Þóra keyrir að körfu Búlgaríu í kvöld.
Þóra keyrir að körfu Búlgaríu í kvöld. mbl.is/Hari

Þóra Kristín Jónsdóttir, leikstjórnandi íslenska landsliðsins, sagði búlgörsku konurnar hafa verið ákafar í vörninni í Laugardalshöll í kvöld og íslenska liðið hafi fyrir vikið átt erfitt með að sýna sínar bestu hliðar í sókninni. 

„Við áttum slæma byrjun en áttum svo góða kafla inn á milli. En þeir voru aldrei nógu góðir til að bæta upp fyrir þá slæmu,“ sagði Þóra og bætti við að vörn Búlgaríu hafi gert íslenska liðinu erfitt fyrir. „Þær voru mjög ágengar og við áttum erfitt með að svara í sömu mynt. Það var eiginlega munurinn á liðunum. Þær eru ekki með betra lið en við en við vorum ekki tilbúnar að mæta þessu.“

Hittni íslensku leikmannanna var mjög slæm fyrir utan 3-stiga línuna en fjórir þristar af tuttugu og fjórum rötuðu rétta leið. „Það hjálpaði ekki til. Það hefði verið gott að fara með boltann að körfunni og senda hann síðan út á leikmenn sem voru opnir fyrir utan. Við gerðum ekki nógu mikið af því og það er eitthvað sem við þurfum að laga fyrir næsta leik,“ sagði Þóra í samtali við mbl.is en hún skoraði 7 stig og gaf 4 stoðsendingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert