„Við þurfum að spýta í lófana“

Helena Sverrisdóttir í baráttunni í leiknum í gær.
Helena Sverrisdóttir í baráttunni í leiknum í gær. mbl.is/Hari

Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfuknattleik, sagði ýmislegt mega betur fara í leik íslenska liðsins eftir tap gegn Búlgaríu í undankeppni EM í Laugardalshöllinni í gærkvöldi.

Mbl.is spurði Benedikt að leiknum loknum hvað færi í gegnum hugann. „Það er ýmislegt. Maður er að spá í því sem við þurfum að gera betur. Nú þarf maður að hugsa um Grikkina. Maður getur ekki verið að velta þessum leik of mikið fyrir sér annað en það að við þurfum að spýta í lófana og gera ansi margt töluvert betur ef við ætlum að vinna Grikkland,“ sagði Benedikt þegar mbl.is ræddi við hann en Ísland mætir Grikklandi ytra á sunnudag. 

Spurður um hvernig Búlgaría hafi gert Íslandi erfitt fyrir í leiknum nefndi Benedikt eitt atriði sérstaklega. „Þær stálu boltanum mjög oft. Búlgaría skoraði 26 stig bara eftir að hafa stolið boltanum. Við töpuðum boltanum fimmtán sinnum í leiknum. Það er eitthvað sem ekkert lið hefur efni á að gera. Búlgarska liðið spilaði fast á okkur og á ákefð. Þær náðu að setja pressu á leikmanninn með boltann og okkur vantaði einhvern til að róa sóknarleikinn hjá okkur og brjóta vörn þeirra niður þegar var verið að ýta okkur út úr okkar aðgerðum,“ sagði Benedikt Guðmundsson. 

Benedikt Guðmundsson gefur skipanir í leiknum í gær.
Benedikt Guðmundsson gefur skipanir í leiknum í gær. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert