Fengum tusku í andlitið

Gunnhildur Gunnarsdóttir í leiknum við Búlgaríu.
Gunnhildur Gunnarsdóttir í leiknum við Búlgaríu. Haraldur Jónasson/Hari

„Við fengum smá tusku í andlitið í byrjun,“ sagði svekkt Gunnhildur Gunnarsdóttir, landsliðskona í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir 54:89-tap fyrir Grikklandi á útivelli í undankeppni EM í dag.

Grikkir byrjuðu mikið mun betur og voru með 54:18-forskot í hálfleik. Íslenska liðinu gekk bölvanlega að byggja upp sóknir gegn ákafri grískri vörn.

„Við vissum að þær væru kannski þetta mikið betri en við, en við ætluðum að mæta með íslensku baráttuna og reyna að standa betur í þeim í fyrri hálfleik, sem kannski tókst ekki alveg.

Við áttum erfitt með að losa boltann og svo fengum við skot með pressu á okkur og þau voru ekki að detta. Við vorum að spila fína vörn á þær á hálfan völl en þegar við skutum lélegum skotum fengu þær hraðaupphlaup sem þær kláruðu rosalega vel,“ sagði Gunnhildur, sem var skiljanlega mikið ánægðri með seinni hálfleikinn sem Ísland vann með einu stigi.

„Við unnum allavega seinni hálfleikinn með einu stigi. Í hálfleik settum við okkur það markmið að byrja í 0:0 og vinna seinni hálfleikinn. Það er jákvætt sem við getum tekið út úr þessu.“

Vantar fleiri atvinnumenn

„Við vorum ákveðnari. Kannski var stress og spennustig í fyrri hálfleik sem við fundum ekki í seinni því við vorum svo langt undir. Við höfðum engu að tapa og oft þegar svoleiðis er þá hrekkur eitthvað í gang. Við vorum að fá góð stig, fráköst og baráttu frá mörgum leikmönnum sem komu inn á í dag og það er bjart.

Gunnhildur segir Ísland verða að fá fleiri atvinnumenn til að eiga möguleika í lið eins og Grikkland. „Við erum með ungt lið en okkur vantar fleiri íslenska atvinnumenn.“

Ísland tapaði fyrir Búlgaríu í Laugardalshöll á fimmtudaginn var, 69:84, og segir Gunnhildur þann leik verri en leikurinn í dag.

„Við áttum séns í Búlgaríuleiknum á meðan það bjóst enginn við sigri hjá okkur í dag. Spennustigið var allt of hátt á móti Búlgaríu og að fá 13:3 áhlaup á okkur varð til þess að við vorum að elta allan tímann. Búlgarski þjálfarinn sagði að þær hafi aldrei spilað svona vel á meðan við vorum ekki að fá nógu mikið frá nógu mörgum leikmönnum. Það var vesen að tapa honum leik, sérstaklega svona stórt. Það var margt betra í dag en á fimmtudaginn og það er allavega jákvætt,“ sagði Gunnhildur.

mbl.is