Þreföld tvenna gegn 30 liðum

LeBron James og Danilo Gallinari í leiknum í nótt.
LeBron James og Danilo Gallinari í leiknum í nótt. AFP

LeBron James skilaði þrefaldri tvennu í sigri LA Lakers á Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og er fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA sem nær því gegn þrjátíu liðum eða öllum liðum deildarinnar. 

James skoraði 22 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar en Lakers vann 112:107.

Russell Westbrook sem leikur nú með Houston Rockets hefur náð þessu gegn tuttugu og níu liðum og getur jafnað við James ef hann nær þessu gegn sínu gamla liði í vetur sem einmitt er Oklahoma. 

Af köppum sem eru sestir í helgan stein má nefna að Jason Kidd náði þessu gegn tuttugu og átta liðum en hann er nú í þjálfarateymi Lakers. Larry Bird gegn tuttugu og fimm og Magic Johnson gegn tuttugu og fjórum. 

Anthony Davis skoraði 34 stig fyrir Lakers og stjörnurnar eru því að skila sínu í borg englanna. Kunningjar Íslendinga frá EM í Berlín voru stigahæstir hjá Oklahoma. Þjóðverjinn Dennis Schröder skoraði 31 stig og Ítalinn Danilo Gallinari skoraði 25 stig. 

Carmelo Anthony er kominn af stað hjá sínu nýja liði Portland Trail Blazers og skoraði 10 stig í nótt þegar liðið tapaði fyrir New Orleans Pelicans 115:104.

Úrslit:

New Orleans - Portland: 115:104

LA Lakers - Oklahoma: 112:107

Sacramento - Phoenix: 120:116

Memphis - Golden State: 95:114 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert