„Agaðir í öllu sem við gerðum“

Logi Gunnarsson
Logi Gunnarsson mbl.is/Hari

Reynsluboltinn Logi Gunnarsson hjá Njarðvík var brattur eftir sigur Njarðvíkinga á Íslandsmeisturum KR í Frostaskjólnu í Dominos-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

„Mér fannst við vera mjög góðir í kvöld. Við höfum verið mjög góðir í vörninni og ég held að við höfum fengið fæst stig á okkur af öllum liðum í deildinni. Mér fannst við gera mjög vel að halda þeim í 75 stigum á þeirra heimavelli. Mér finnst við vera með ákveðið tak á þeim eftir að hafa unnið þá í öllum þremur leikjunum í fyrra. Við virðumst „matcha“ vel á móti þeim. Mér fannst við vera agaðir í öllu sem við gerðum í kvöld. Sóknin var reyndar stundum svolítið slöpp en þá unnum við það upp með ákefð í vörn,“ sagði Logi þegar mbl.is tók hann tali í kvöld.

Njarðvíkingar rótburstuðu Þórsara í síðustu umferð með sextíu og tveggja stiga mun. Spurður um hvort það hafi gefið Njarðvíkingum sálrænt veganesti fyrir framhaldið þá sagði Logi það ekki skipta meginmáli. Liðið hafi spilað vel í síðustu leikjum og sé nú að standa sig eins og það á að geta gert.

„Þórsararnir hittu á okkur á slæmum stað fyrir þá. Við vorum óánægðir með stigasöfnun í fyrstu umferðunum og vildum vera á fullu í allan leikinn. Við höfum verið á fullu í síðustu fjórum leikjum og mér finnst við vera að gera mjög vel.“

mbl.is