Craig Pedersen endurráðinn

Craig Pedersen og Herbert Arnarsson formaður afreksnefndar KKÍ.
Craig Pedersen og Herbert Arnarsson formaður afreksnefndar KKÍ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Craig Pedersen verður áfram við stjórnvölinn hjá karlalandsliðinu í körfuknattleik. Var tilkynnt um endurráðningu hans á blaðamannafundi sem nú stendur yfir. 

Pedersen gerir nú þriggja ára samning við KKÍ en ekki hefur gengið frá ráðningu á aðstoðarmönnum. Finnur Freyr Stefánsson var aðstoðarþjálfari hjá Pedersen í síðustu keppni. 

Pedersen tók við landsliðinu árið 2014 og undir hans stjórn komst Ísland í lokakeppni EM 2015 og 2017. Samningur hans hefði runnið út um áramótin. 

Í síðustu forkeppni hallaði undan fæti og Ísland komst ekki í sjálfa undankeppnina fyrir lokakeppnina 2021 en nú fer lokakeppni EM fram á fjögurra ára fresti en ekki á tveggja ára fresti eins og fyrirkomulagið var um tíma. 

Næstu mótsleikir landsliðsins verða í febrúar og þar er um að ræða forkeppni fyrir HM 2023.

Herbert Arnarsson, formaður afreksnefndar KKÍ og var áður kölluð landsliðsnefnd, sagði á fundinum að nefndin hafi skoðað málið vel ásamt stjórn KKÍ. Herbert segir að Pedersen sé mjög hæfur og hafi afar mikla þekkingu á íþróttinni. Samband hans við landsliðsmennina sé einstakt. KKÍ sé því heppið að njóta starfskrafta hans áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert