Tryggvi maður leikins í stórsigri á Real Madríd

Tryggvi Snær Hlinason treður með tilþrifum.
Tryggvi Snær Hlinason treður með tilþrifum. Ljósmynd/FIBA

Zaragoza gerði sér lítið fyrir og vann 84:67-stórsigur á heimavelli gegn toppliði Real Madríd í spænsku A-deildinni í körfubolta í kvöld. Landsliðsmaðurinn Tryggvi Snær Hlinason átti einn sinn besta leik síðan hann varð atvinnumaður. 

Tryggvi skoraði tólf stig, tók níu fráköst og gaf eina stoðsendingu fyrir Zaragoza á 25 mínútum. Miðherjinn stóri spilar 12 mínútur að meðaltali, skorar 3,5 stig, tekur 2 fráköst og gefur 0,2 stoðsendingar. Hann var því töluvert yfir eigin meðaltali í öllum þáttum leiksins. 

Þá var Tryggvi með 17 framlagspunkta, flesta allra og vann liðið þær 25 mínútur sem Tryggvi spilaði með 31 stigs mun, meira en nokkur annar leikmaður liðsins. 

Zaragoza hefur komið liða mest á óvart í deildinni og er í þriðja sæti með 16 stig, tveimur stigum á eftir stórliðunum Real Madríd og Barcelona. 

mbl.is