Spennuþrunginn Texasslagur og 50 stig ekki nóg

Kawhi Leonard á fullri ferð með LA Clippers gegn Portland …
Kawhi Leonard á fullri ferð með LA Clippers gegn Portland í nótt en Clippers vann þar öruggan tuttugu stiga sigur. AFP

Þótt Houston Rockets væri með fjórtán stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann gegn San Antonio Spurs í viðureign Texasliðanna í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt og James Harden skoraði 50 stig fyrir liðið annan leikinn í röð mátti það að lokum þola tap eftir gríðarlega spennu og tvær framlengingar.

San Antonio vann þegar upp var staðið, 135:133, eftir frábæran endasprett í fjórða leikhluta. Þar jafnaði Lonnie Walker metin í 115:115 með þriggja stiga körfu og lokaskot Hardens sekúndu fyrir leikslok geigaði. Houston var yfir, 133:131, þegar hálf mínúta var eftir af annarri framlengingu en fjögur vítaskot San Antonio tryggðu liðinu sigur.

Slóveninn ungi Luka Doncic átti enn einn stórleikinn með Dallas og skoraði 33 stig og tók 18 fráköst í öruggum sigri á New Orleans Pelicans, 118:97.

LeBron James skoraði 25 stig fyrir LA Lakers í 18. sigurleik liðsins af 21 á tímabilinu til þessa.

Úrslitin í nótt:

Cleveland - Detroit 94:127
Washington - Orlando 120:127
Toronto - Miami 110:121 (framlengt)
New Orleans - Dallas 97:118
San Antonio - Houston 135:133 (tvíframlengt)
Denver - LA Lakers 96:105
LA Clippers - Portland 117:97

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert