Meistararnir gerðu góða ferð til Stykkishólms

Valur og Haukar eru komnir í undanúrslit.
Valur og Haukar eru komnir í undanúrslit. mbl.is/Árni Sæberg

Íslands- og bikarmeistarar Vals eru komnir áfram í undanúrslit Geysisbikars kvenna í körfubolta eftir 69:62-sigur á Snæfelli á útivelli í dag. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann, en Valskonur unnu sex stiga sigur í þriðja leikhlutanum og lögðu grunninn að sigrinum. 

Kiana Johnson skoraði 21 stig fyrir Val, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar. Hallveig Jónsdóttir skoraði 16 stig. Valur lék án Helenu Sverrisdóttur sem er að glíma við meiðsli. Emese Vida skoraði 20 stig og tók 23 fráköst fyrir Snæfell og Anna Soffía Lárusdóttir gerði 19 stig. 

Úrvalsdeildarlið Hauka er einnig komið í undanúrslit eftir auðveldan 126:59-sigur á Tindastóli á útivelli. Tindastóll leikur í 1. deild og átti ekki möguleika gegn úrvalsdeildarliðinu. 

Jannetje Guijt skoraði 21 stig fyrir Hauka og þær Þóra Kristín Jónsdóttir og Bríet Lilja Sigurðardóttir gerðu 19 stig  hvor. Tessondra Williams skoraði 21 stig fyrir Tindastól og Telma Ösp Einarsdóttir skoraði 10. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert