Capela að springa út í NBA

Clint Capela í leik með Houston.
Clint Capela í leik með Houston. AFP

Svisslendingurinn Clint Capela virðist vera að springa út í sterku liði Houston Rockets í NBA-deildinni í körfuknattleik í vetur. 

Capela mætti Íslendingum tvívegis í ágúst í forkeppni EM 2021. Sviss tapaði í Laugardalshöllinni en vann stórsigur í síðari leiknum í Sviss og vann þar með riðilinn en Íslendingar sátu eftir með sárt ennið. Þar var Capela í lykilhlutverki. 

Miðherjinn hefur skorað 15 stig að meðaltali og tekið 15 fráköst að jafnaði í NBA á þessu keppnistímabili en nú er fjórðungi leikja lokið í deildinni. Þá er úrslitakeppnin ekki talin með. 

Capela hefur náð því að skora 20 stig og taka 20 fráköst í sjö leikjum í vetur og hefur fyrir vikið vakið talsverða athygli þótt þeir James Harden og Russell Westbrook séu vitaskuld mest í sviðsljósinu. 

Capela er 25 ára gamall og er á sínu sjötta tímabili í deildinni. Hann er 208 cm og gæti ef fram heldur sem horfir orðið sögulega góður frákastari. Á dögunum náði hann því að taka 20 fráköst eða fleiri í fimm leikjum í röð í deildinni. 

Á þessu keppnistímabili hefur hann tekið næstflest fráköst að meðaltali en Andre Drummond er með tæplega 17 fráköst að meðatali fyrir Detroit Pistons. Capela tók tæp 13 fráköst að meðaltali á síðasta tímabili. 

Clint Capela (lengst til hægri) mætir hér Elvari Má Friðrikssyni …
Clint Capela (lengst til hægri) mætir hér Elvari Má Friðrikssyni í Laugardalshöllinni 10. ágúst 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is