Davis var óstöðvandi

Anthony Davis með boltann í leiknum í nótt.
Anthony Davis með boltann í leiknum í nótt. AFP

Anthony Davis var óstöðvandi í nótt þegar Los Angeles Lakers vann enn einn sigurinn í NBA-deildinni í körfuknattleik og lagði Minnesota Timberwolves í sannkölluðum stigaleik í Staples Center, 142:125.

Davis skoraði 50 stig í leiknum, í fyrsta skipti á tímabilinu, ásamt því að taka 7 fráköst og eiga 6 stoðsendingar. LeBron James var líka drjúgur með 32 stig og 13 stoðsendingar fyrir Lakers sem hefur unnið 21 af 24 leikjum sínum á tímabilinu og er með bestu stöðu allra liða í deildinni til þessa.

Kawhi Leonard skoraði 34 stig og tók 11 fráköst fyrir Los Angeles Clippers sem vann sannfærandi útisigur á Washington Wizards, 135:119. Clippers er í öðru sæti Vesturdeildar, á eftir grönnum sínum í Lakers, með 17 sigra í 24 leikjum.

Tyler Herro tryggði Miami sigur á Chicago í framlengdum leik, 110:105, með þriggja stiga körfu undir lok framlengingar. Hann var jafnframt stigahæstur með 27 stig en Finninn öflugi Lauri Markkanen skoraði 22 stig fyrir Chicago.

Brooklyn - Denver 105:102
Charlotte - Atlanta 107:122
Miami - Chicago 110:105 (framlengt)
Philadelphia - Toronto 110:104
Washington - LA Clippers 119:135
Dallas - Sacramento 106:110
Portland - Oklahoma City 96:108
LA Lakers - Minnesota 142:125

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert