Sektaður fyrir að horfa ekki á fánann

Körfuboltaaðdáendur í Kína.
Körfuboltaaðdáendur í Kína. AFP

Franskur körfuknattleiksmaður hefur verið sektaður um 10 þúsund júan, jafnvirði um 170 þúsund íslenskra króna, fyrir að hafa ekki augun á kínverska fánanum þegar þjóðsöngurinn var leikinn fyrir leik í kínversku deildinni í körfubolta.

Samkvæmt frétt AFP er leikmönnum í kínversku deildinni skylt að horfa á fánann þegar kínverski þjóðsöngurinn er leikinn fyrir leiki. Myndir sýndu hins vegar að Guerschon Yabusele, sem leikur með Nanjing Tongxi Monkey King, laut höfði fyrir leik á föstudaginn.

Auk sektarinnar fékk Yabusele „alvarlega viðvörun“ fyrir að horfa ekki þangað sem hann átti að horfa, að því er fram kom í yfirlýsingu kínversku deildarinnar.

Yabusele, sem lék áður með Boston Celtics í NBA-deildinni í Bandaríkjunum, hefur ekki tjáð sig um málið.

Skiptar skoðanir eru um sektina á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo. Einhverjir vilja að leikmaðurinn verði rekinn úr deildinni á stundinni á meðan aðrir benda á að hann hafi í raun ekki gert neitt af sér.

mbl.is