Harden með 55 og LA-liðin á siglingu

Garrett Temple hjá Brooklyn Nets og Bismack Biyombo hjá Charlotte …
Garrett Temple hjá Brooklyn Nets og Bismack Biyombo hjá Charlotte Hornets í baráttu undir körfunni í viðureign liðanna í nótt. AFP

James Harden skoraði fimmtíu stig fyrir Houston Rockets í fjórða skiptið í vetur þegar lið hans vann Cleveland Cavaliers á útivelli, 116:110, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Harden skoraði 55 stig í leiknum og jafnaði persónulegt með í deildinni með því að setja niður tíu þriggja stiga skot.

LeBron James var með þrefalda tvennu, 25 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar, fyrir Los Angeles Lakers sem vann tólfta útisigurinn í þrettán leikjum með því að sigra Orlando, 96:87. Lakers er á toppi Vesturdeildar með 22 sigra í fyrstu 25 leikjunum.

Milwaukee Bucks hélt líka áfram sinni sigurgöngu, vann New Orleans Pelicans 127:112 og hefur líka unnið 22 leiki af 25 og þar af sextán leiki í röð. Eric Bledsoe skoraði 29 stig fyrir Milwaukee sem hefur aldrei byrjað betur í deildinni.

Devonte Graham setti persónulegt met þegar hann skoraði 40 stig fyrir Charlotte Hornets sem vann Brooklyn Nets á útivelli, 113:108.

Kawhi Leonard skoraði 23 stig fyrir Los Angeles Clippers sem vann meistarana Toronto Raptors á sannfærandi hátt á útivelli, 112:92. Clippers er í öðru sæti Vesturdeildar, á eftir grönnum sínum í Lakers.

Kemba Walker skoraði 44 stig fyrir Boston Celtics gegn Indiana Pacers á útivelli en það dugði ekki til því Indiana vann leikinn 122:117.

New York Knicks vann í fyrsta skipti í ellefu leikjum þegar liðið sigraði Golden State Warriors í framlengdum leik á útivelli, 124:122. Marcus Morris skoraði 36 stig fyrir Knicks í þessu uppgjöri botnliðanna sem eru aðeins með fimm sigurleiki hvort á tímabilinu.

Úrslitin í nótt:

Orlando - LA Lakers 87:96
Toronto - LA Clippers 92:112
Cleveland - Houston 110:116
Indiana - Boston 122:117
Brooklyn - Charlotte 108:113
Minnesota - Utah 116:127
Chicago - Atlanta 136:102
Phoenix - Memphis 108:115
Milwaukee - New Orleans 127:112
Sacramento - Oklahoma City 94:93
Golden State - New York 122:124 (eftir framlengingu)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert