Slóvenski strákurinn í sögubækurnar

Luka Doncic skorar fyrir Dallas í leiknum í Mexíkóborg í …
Luka Doncic skorar fyrir Dallas í leiknum í Mexíkóborg í nótt. AFP

Slóveninn ungi Luka Doncic heldur áfram að fara á kostum með Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfuknattleik og í nótt var það lið Detroit Pistons sem varð fyrir barðinu á þessum magnaða körfuboltamanni.

Leikur liðanna var spilaður í Mexíkóborg og Doncic varð fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til að skora þrefalda tvennu í deildarleik utan Bandaríkjanna og Kanada. Hann skoraði 41 stig, tók 12 fráköst og átti 11 stoðsendingar í sigri Dallas, 122:111.

Doncic er líka fyrsti leikmaðurinn til að skora tvisvar 40 stiga þrefalda tvennu í NBA áður en hann verður 21 árs gamall.

Kevin Love skoraði 30 stig og tók 17 fráköst fyrir Cleveland sem vann San Antonio Spurs í framlengdum leik á útivelli, 117:109.

Boston Celtics tapaði í fyrsta skipti á heimavelli í vetur eftir að hafa unnið fyrstu tíu leikina, 109:115 gegn Philadelphia 76ers. Joel Embiid skoraði 38 stig og tók 13 fráköst fyrir Philadelphia en Kemba Walker skoraði 29 stig fyrir Boston.

Úrslitin í nótt:

Boston - Philadelphia 109:115
San Antonio - Cleveland 109:117 (eftir framlengingu)
Detroit - Dallas 111:122
Denver - Portland 114:99

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert