Doncic fór út af meiddur í spennuleik

Luka Doncic haltraði af velli í nótt.
Luka Doncic haltraði af velli í nótt. AFP

Miami Heat vann 122:118-sigur á Dallas Mavericks í framlengdum spennuleik í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Slóvenska stórstjarnan Luka Doncic þurfti að fara meiddur af velli í fyrsta leikhluta og gengu gestirnir frá Miami á lagið.

Eftir að Doncic fór af velli með tognaðan ökkla komst Miami mest 24 stigum yfir en Jimmy Butler var atkvæðamestur í liðinu, skoraði 27 stig. Heimamenn náðu hins vegar að kreista fram framlengingu en þar urðu þeir að lokum að játa sig sigraða. Tim Hardaway var stigahæstur í liði Dallas með 28 stig og þá skoraði Kristaps Porzingis 22 stig og tók 14 fráköst.

Meiðsli Doncic eru ekki talin alvarleg en það er nær öruggt að hann missir af leiknum gegn Milwaukee Bucks á mánudaginn. Það munar um það en Milwaukee vann sinn átjanda leik í röð í nótt, 125:108 gegn Cleveland Cavaliers.

Giannis Antetokunmpo skoraði 29 stig fyrir Milwaukee-liðið sem er algjörlega óstöðvandi um þessar mundir og Khris Middleton bætti við 24 stigum. Liðið er efst í austurdeildinni með 24 sigra í 27 leikjum.

Úrslitin í nótt
Phoenix Suns - San Antonio Spurs 119:121
Toronto Raptors - Brooklyn Nets 110:102
Chicago Bulls - Los Angeles Clippers 109:106
Memphis Grizzlies - Washington Wizards 128:111
Dallas Mavericks - Miami Heat 118:122
Milwaukee Bucks - Cleveland Cavaliers 125:108
Denver Nuggets - Oklahoma City Thunder 110:102
Houston Rockets - Detroit Pistons 107:115

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert