Maður leiksins í Meistaradeildinni

Tryggvi átti afar góðan leik í kvöld.
Tryggvi átti afar góðan leik í kvöld. Ljósmynd/FIBA

Spænska liðið Zaragoza vann sterkan 80:73-heimasigur á Besiktas frá Tyrklandi í Meistaradeild Evrópu í körfubolta í kvöld. Tryggvi Snær Hlinason var besti maður Zaragoza í leiknum. 

Tryggvi hefur vaxið inn í lið Zaragoza eftir því sem liðið hefur á leiktíðina og er miðherjinn stóri og stæðilegi orðinn mikilvægur hlekkur hjá spænska liðinu. 

Tryggvi skoraði ellefu stig, tók átta fráköst, gaf tvær stoðsendingar og varði fjögur skot. Var hann alls með 21 framlagspunkt, meira en nokkur annar á vellinum.

Gengi spænska liðsins á leiktíðinni hefur komið á óvart. Zaragoza er í þriðja sæti D-riðils í Meistaradeildinni með fimm sigra og fjögur töp. Á liðið góða möguleika á að fara áfram úr riðli sínum. 

Þá er liðið óvænt í þriðja sæti deildarinnar með jafnmörg stig og stórlið Barcelona og aðeins tveimur á eftir Real Madríd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert