„Mikil framför frá síðasta leik“

Danielle með boltann í leiknum í kvöld.
Danielle með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danielle Rodriguez lék afar vel bæði í vörn og sókn hjá KR í kvöld þegar liðið lagði Keflavík að velli 69:47. Skoraði hún 20 stig, tók 8 fráköst, varði fjögur skot, náði boltanum þrívegis og gaf þrjár stoðsendingar. 

Mbl.is ræddi við Danielle að leiknum loknum og sagði hún vörnina hafa skipt öllu máli að þessu sinni. Sagði hún jafnframt að í herbúðum KR hafi öll áhersla fyrir leikinn verið lögð á að hafa hana í lagi og það gekk heldur betur eftir. 

„Þessi frammistaða liðsins var mikil framför frá síðasta leik gegn Haukum [sem KR tapaði]. Við spiluðum miklu betri vörn en gegn Haukum enda var varnarleikurinn ástæða þess að við töpuðum þeim leik. Góð vörn gaf tóninn fyrir okkur í þessum leik. Á síðustu tveimur æfingum fyrir þennan leik lögðum við áherslu á vörnina og hún var því sá þáttur sem við vorum að velta fyrir okkur. Það sást í síðari hálfleik þegar Keflavík skoraði aðeins 12 stig. Við mátum þetta þannig að yrði vörnin í lagi þá myndi sóknin fylgja með.“

Danielle er ekki alfarið ánægð með stöðu KR á þessum tímapunkti en liðið er í 2. sæti Dominos-deildarinnar, fjórum stigum á eftir Íslands- og bikarmeisturum Vals. Spurð um hvort baráttan um stóra titilinn muni standa á milli þessara liða í vor brosir Danielle og bendir á að deildin hafi ekki reynst jafn fyrirsjáanleg og talið var að hún yrði. 

„Ég var að vonast eftir því að töpin yrðu færri hjá okkur á þessum tímapunkti. En slíkt getur alltaf gerst og mestu máli skiptir að liðið haldi áfram að bæta sig. Aðalatriðið er að komast í úrslitakeppnina og vera á góðu róli þegar hún hefst. Fyrir tímabilið taldi ég að Valur og KR yrðu bestu liðin og baráttan á toppnum yrði á milli þessara liða. Ég reikna með því að flestir hafi litið þannig á. En mörg liðanna í deildinni eru að spila góðan körfubolta enda eru þau með hæfileikaríka leikmenn og hæfa þjálfara. Allt getur því gerst en ég krosslegg fingurna og vonast eftir KR í úrslitunum. Þetta er jákvæð staða fyrir körfubolta kvenna á Íslandi því fleiri vilja sjá leikina þegar þeir eru jafnir heldur en ef eitthvert lið sker sig alfarið úr og valtar yfir öll lið,“ sagði Danielle Victoria Rodriguez enn fremur við mbl.is í kvöld. 

Danielle keyrir upp að körfu Keflavíkur í kvöld og skorar …
Danielle keyrir upp að körfu Keflavíkur í kvöld og skorar tvö af 20 stigum sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert