Denver vann toppslaginn gegn Clippers

Will Barton hjá Denver reynir skot en Ivica Zubac hjá …
Will Barton hjá Denver reynir skot en Ivica Zubac hjá Los Angeles Clippers reynir að verjast í viðureign liðanna í nótt. AFP

Denver Nuggets lagði Los Angeles Clippers að velli, 114:104, í toppslag liðanna í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt en liðin eru í baráttunni um efstu sætin í Vesturdeildinni.

Nikola Jokic var í aðalhlutverki hjá Denver með 20 stig og 15 fráköst en Kawhi Leonard skoraði 30 stig fyrir Clippers. Denver er í öðru sæti Vesturdeildar með 27 sigra í 39 leikjum en Clippers hefur sigið niður í fimmta sætið með 27 sigra í 40 leikjum. Þar á milli eru Utah og Houston en Lakers er með örugga forystu vestanmegin.

Utah Jazz vann sinn níunda leik í röð og Bojan Bogdanovic skoraði 31 stig í útisigri á Washington Wizards, 127:116.

Julius Randle skoraði 26 stig fyrir New York Knicks í sjaldgæfum sigri en liðið vann heimasigur á Miami Heat, 124:121, eftir magnaðan fjórða leikhluta þar sem liðið skoraði 40 stig gegn 27.

Kyrie Irving skoraði 21 stig á aðeins 20 mínútum fyrir Brooklyn Nets þegar hann sneri aftur á völlinn eftir nokkurt hlé en liðið vann botnlið Atlanta auðveldlega, 108:86.

Jonas Valanciunas skoraði 31 stig og tók 19 fráköst fyrir Memphis Grizzlies í sigri á Golden State Warriors, 122:102. Þetta var fimmti sigur Memphis í röð.

Toronto - San Antonio 104:105
Memphis - Golden State 122:102
Brooklyn - Atlanta 108:86
Washington - Utah 116:127
New York - Miami 124:121
Denver - LA Clippers 114:104
Phoenix - Charlotte 100:92

mbl.is