Nítjándi heimasigurinn í vetur

Jerome Robinson hjá Los Angeles Clippers rænir boltanum af Larry …
Jerome Robinson hjá Los Angeles Clippers rænir boltanum af Larry Nance hjá Cleveland Cavaliers í leik liðanna í nótt. AFP

Topplið Milwaukee Bucks vann sinn nítjánda sigur á heimavelli á þessu tímabili í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt þegar liðið lagði New York Knicks á öruggan hátt, 128:102.

Giannis Antetokoumpko skoraði 37 stig fyrir Milwaukee þótt hann léki aðeins 22 mínútur en lið hans hefur nú unnið 36 af 42 leikjum sínum á tímabilinu.

Kawhi Leonard skoraði 43 stig á aðeins 28 mínútum fyrir Los Angeles Clippers sem vann Cleveland Cavaliers 128:103.

James Harden skoraði 41 stig fyrir Houston Rockets gegn Memphis Grizzlies en mátti sætta sig við ósigur, 121:110. Memphis vann sjötta leik sinn í röð og Ja Morant skoraði 26 stig.

Rudy Cobert skoraði 22 stig og tók 18 fráköst fyrir Utah Jazz sem vann útisigur á Brooklyn Nets, 118:107. Kyrie Irving var með 32 stig og 11 stoðsendingar fyrir Brooklyn.

Trae Young skoraði 36 stig og átti 10 stoðsendingar fyrir botnlið Atlanta Hawks sem vann fágætan sigur, 123:110, á Phoenix Suns. Devin Booker skoraði 39 stig fyrir Phoenix.

Dwight Powell skoraði 21 stig og Luka Doncic 20 fyrir Dallas Mavericks sem vann auðveldan útisigur á Golden State, 124:97.

Úrslitin í nótt:

Atlanta - Phoenix 123:110
Brooklyn - Utah 107:118
Milwaukee - New York 128:102
Memphis - Houston 121:110
Golden State - Dallas 97:124
LA Clippers - Cleveland 128:103

mbl.is