Beðið um sakavottorð frá mörgum löndum

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var svekktur eftir 66:73-tap fyrir Stjörnunni á útivelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Stjarnan var yfir nánast allan leikinn og var sigurinn verðskuldaður. 

„Þeir voru töluvert þéttari en við í fyrri hálfleik og það var barátta að koma til baka. Það var það sem skildi liðin að. Þeir tóku allt of mörg sóknarfráköst í fyrri en annars var þetta bara hörkuleikur. Þeir voru bara einu skrefi á undan okkur,“ sagði Baldur í samtali við mbl.is. 

Tindastóll minnkaði muninn í þrjú stig þegar lítið var eftir, en Stjarnan skoraði fjögur síðustu stigin. „Eitt stopp hérna í staðinn fyrir að fá eina troðslu frá Urald (King). Það vantaði bara eitt play hér eða þar sem vantaði upp á til að koma til baka. Við eigum það bara inni,“ sagði Baldur sem sér eitthvað jákvætt við leikinn, þrátt fyrir tap. 

„Við spilum þéttan varnarleik og erum að leggja okkur fram. Við komum til baka eftir að við lentum í holu. Við vorum einbeittir í þéttum leik á móti góðu liði. Við lærum af þessu og höldum áfram. Það er auðvitað alltaf svekkjandi að tapa en við verum að spila á móti mjög þéttum liðum. Við verðum að geta mætt í svona leiki og klára þá. Við verðum að vinna öll liðin í deildinni.“

Tindastóll samdi við Bandaríkjamanninn Deremy Geiger um áramótin, en hann er ekki enn kominn með leikheimild hjá félaginu. „Ég hef ekki hugmynd,“ svaraði Baldur, aðspurður hvenær leikheimild fengist fyrir Geiger.

„Pappírsvinna fyrir erlenda leikmenn á Íslandi er ekki auðveld eins og staðan er í dag. Það er verið að biðja um sakavottorð frá mörgum löndum og við erum að fá leikmann sem hefur spilað á mörgum stöðum. Ef það þarf bara að sækja um þetta í Bandaríkjunum er það ekkert mál, en að sækja um þetta í þremur Evrópulöndum líka tekur lengri tíma og það er fullt af veggjum til að lenda á,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson. 

Baldur Þór Ragnarsson ræðir við sína menn.
Baldur Þór Ragnarsson ræðir við sína menn. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is