Sögulegur árangur í naumum sigri

Damian Lillard var óstöðvandi með Portland Trail Blazers í nótt.
Damian Lillard var óstöðvandi með Portland Trail Blazers í nótt. AFP

Damian Lillard náði sögulegum árangri í nótt þegar hann varð fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar í körfuknattleik til að skora sextíu stig og gera í leiðinni tíu þriggja stiga körfur.

Þetta gerði hann fyrir Portland Trail Blazers þegar liðið vann nauman sigur á botnliði Golden State Warriors í framlengdum leik, 129:124, eftir að staðan var 113:113 að loknum venjulegum leiktíma. Stig Lillards urðu samtals 61 og hann tók 10 fráköst. Hann jafnaði metin í lok venjulegs leiktíma, með þriggja stiga körfu og skoraði sjö af síðustu ellefu stigum Portland á síðustu 58 sekúndum framlengingarinnar.

Boston Celtics lék Los Angeles Lakers grátt í uppgjöri gömlu stórveldanna, 139:107. Jason Tatum skoraði 27 stig fyrir Boston, Kemba Walker og Jaylen Brown 20 hvor. Javale McGee skoraði 18 stig fyrir Lakers og LeBron James var með 15 stig og 13 stoðsendingar.

Giannis Antetokounmpo var með þrefalda þrennu fyrir topplið Milwaukee Bucks, 28 stig, 14 fráköst og 10 stoðsendingar, þegar það vann Chicago Bulls á heimavelli, 111:98.

Milwaukee er þá komið með 39 sigra í 45 leikjum á toppi Austurdeildar en Miami, Toronto og Boston eru í næstu sætum. Lakers er með 34 sigra í 43 leikjum á toppi Vesturdeildar en Denver, Utah og LA Clippers eru hnífjöfn í öðru til fjórða sætinu.

Úrslitin í nótt:

Miami - Sacramento 118:113, eftir framlengingu
Milwaukee - Chicago 111:98
Houston - Oklahoma City 107:112
Charlotte - Orlando 83:106
Memphis - New Orleans 116:126
Cleveland - New York 86:106
Washington - Detroit 106:100
Atlanta - Toronto 117:122
Brooklyn - Philadelphia 111:117
Boston - LA Lakers 139:107
Minnesota - Denver 100:107
Utah - Indiana 118:88
Phoenix - San Antonio 118:120
Portland - Golden State 129:124, eftir framlengingu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert