Besti nýliðinn verður loksins með í kvöld

Zion Williamson í upphitun fyrir leik hjá New Orleans í …
Zion Williamson í upphitun fyrir leik hjá New Orleans í þessum mánuði. Nú er komið að því að hann spili með liðinu. AFP

Í kvöld er loksins komið að því að besti leikmaður bandaríska háskólakörfuboltans síðustu ár taki sín fyrstu skref í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Hinn 19 ára gamli Zion Williamson var valinn fyrstur í nýliðavali NBA síðasta sumar og margir sérfræðingar telja að hann sé sá besti sem fram hefur komið síðan LeBron James kom fram á sjónarsviðið fyrir sextán árum.

New Orleans Pelicans valdi Williamson sem kemur frá Duke-háskólanum, þar sem hann skoraði 22,6 stig og tók 8,9 fráköst að meðaltali í leik síðasta vetur. Hann meiddist á hné og hefur af þeim sökum ekki getað spilað fyrstu 43 leiki liðsins á tímabilinu en í kvöld á hann að þreyta frumraunina þegar New Orleans mætir San Antonio Spurs. 

mbl.is