Toppslagur erkifjendanna í Vesturbænum í kvöld

Dagbjört Dögg Karlsdóttir úr Val sækir að körfu KR í …
Dagbjört Dögg Karlsdóttir úr Val sækir að körfu KR í leik liðanna fyrr í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einn af lykilleikjunum á Íslandsmóti kvenna í körfuknattleik fer fram í Vesturbænum í kvöld þegar KR tekur á móti Val í sautjándu umferð Dominos-deildar kvenna.

Gömlu erkifjendurnir eru í tveimur efstu sætunum en Íslandsmeistarar Vals eru með 28 stig á toppnum og KR 24 stig í öðru sætinu. Með sigri í kvöld yrðu Valskonur komnar í þægilega stöðu á toppnum og deildarmeistaratitillinn innan seilingar en KR myndi hins vegar galopna þá baráttu á ný.

Þetta er þriðja viðureign liðanna í vetur en Valur hefur unnið hinar tvær, 76:74 í Vesturbænum í október og 74:68 á Hlíðarenda í desember. Leikin er fjórföld umferð í deildinni þannig að KR gæti með sigri í kvöld enn náð yfirhöndinni í innbyrðis viðureignum.

Keflavík er með 22 stig, Skallagrímur 20 og Haukar 20 stig í hörðum slag um hin tvö sætin í úrslitakeppninni. Keflavík tekur á móti Breiðabliki í kvöld og Haukar heimsækja Grindvíkinga. Umferðinni lýkur síðan með Vesturlandsslag í Stykkishólmi annað kvöld en Snæfell tekur þar á móti Skallagrími.

mbl.is