Tryggvi og félagar á toppinn í Meistaradeildinni

Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum í leik með Zaragoza.
Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum í leik með Zaragoza. Ljósmynd/Zaragoza

Tryggvi Snær Hlinason og samherjar hans í spænska körfuknattleiksliðinu Zaragoza gerðu góða ferð til Frakklands í gærkvöld og unnu þar stórsigur á Dijon í Meistaradeild FIBA, 105:73.

Með þessum magnaða útisigri hirti Zaragoza efsta sæti D-riðils af Dijon en bæði liðin eru með 8 sigra í 12 leikjum og tveimur stigum meira en Bonn frá Þýskalandi og Besiktas frá Tyrklandi.

Tryggvi lék aðeins í níu mínútur í gærkvöld en nýtti tímann vel, skoraði fimm stig og tók þrjú fráköst.

Alls leika 32 lið í fjórum riðlum í Meistaradeild FIBA. Fjögur efstu liðin komast áfram og Zaragoza hefur nú tryggt sér það þótt liðið eigi tveimur leikjum ólokið.

mbl.is