Dallas leggur treyjunúmer Bryants til hliðar

Kobe Bryant lék í treyju númer 8 fyrstu tíu ár …
Kobe Bryant lék í treyju númer 8 fyrstu tíu ár ferilsins en færðu sig svo yfir í treyju númer 24. AFP

Bandaríska körfuknattleiksfélagið Dallas Mavericks hefur ákveðið að leggja treyju númer 24 til hliðar eftir fráfall Kobe Bryants í gær. Bryant lést í þyrluslysi í Kaliforníu ásamt þrettán ára gamalli dóttur sinni Giönnu og sjö öðrum sem voru um borð í þyrlunni. Mikil sorg ríkir í Bandaríkjunum eftir fráfall Bryants sem var einn besti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar.

„Við erum í andlegu sjokki og algjörlega eyðilöggð eftir að fréttir af andláti Kobe Bryants bárust okkur í gær,“ sagði Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, í samtali við bandaríska fjölmiðla í gær. „Kobe var sendiherra fyrir körfuboltann, margverðlaunuð goðsögn sem naut hylli og virðingar um allan heim.“

„Umfram allt var hann elskandi faðir og fjölskyldumaður. Goðsögn Kobe er stærri en körfubolti og við höfum því ákveðið að leggja treyju númer 24 til hliðar og það mun enginn hjá félaginu spila aftur í þeirri treyju. Ég vil nota tækifærið og votta fjölskyldu hans og vinum mína dýpstu samúð,“ bætti Cuban við.

mbl.is