Heimsbyggðin syrgir Kobe Bryant

Kobe Bryant ásamt eiginkonu sinni Vanessu Laine Bryant á Óskarsverðlaunahátíðinni …
Kobe Bryant ásamt eiginkonu sinni Vanessu Laine Bryant á Óskarsverðlaunahátíðinni 2018 þar sem Bryant fékk Óskarinn fyrir stuttmynd sína Dear Basketball. AFP

Kobe Bryant, einn besti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar í körfuknattleik, lést í þyrluslysi í Kaliforníu í gær. Bryant var 41 árs gamall þegar hann lést en alls voru níu manns í þyrlunni. Gianna Maria-Onore, þrettán ára gömul dóttir hans, var einnig um borð í þyrlunni en Bryant lætur eftir sig eiginkonu og þrjár dætur.

Frá því að fréttir bárust fyrst af andláti Bryants hefur heimsbyggðin verið í hálfgerðu sjokki. Bryant var ekki bara magnaður íþróttamaður heldur einn áhrifamesti íþróttamaður samtímans. Hann var vel liðinn, hvert sem hann fór, og var duglegur að styðja við bakið og vera í samskiptum við annað íþróttafólk.

Margir af sigursælustu íþróttamönnum dagsins í dag hafa verið duglegir að minnast Bryants á samfélagsmiðlum í dag. Knattspyrnumennirnir Paul Pogba og Neymar hafa báðir vottað honum virðingu sína, fimleikadrottningin Simone Biles er ein þeirra og þá hafa stjórnmálamenn eins og Recep Erdogan og Barack Obama vottað honum virðingu sína.

Kobe Bryant fagnar ásamt fjölskyldu sinni eftir að hann varð …
Kobe Bryant fagnar ásamt fjölskyldu sinni eftir að hann varð NBA-meistari í fjórða sinn með Los Angeles Lakers árið 2009. AFP
mbl.is