Þór lagði meistara KR í spennutrylli

Þór vann sterkan sigur á KR í kvöld.
Þór vann sterkan sigur á KR í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þór og KR spiluðu margfrestaðan leik sinn úr 11. umferð Dominos-deildar karla í kvöld. Leikurinn átti að fara fram 19. desember en veður og færð hafa komið í veg fyrir heimsókn KR-inga.

Vesturbæingar mættu fáliðaðir, einungis með átta menn á leikskýrslu. Jón Arnór Stefánsson var í leikbanni og þeir Dino Cinac og Eyjólfur Ásberg Halldórsson voru ekki komnir með leikheimild þegar leikurinn átti að fara fram í desember.

Þór vann leikinn 102:100 eftir svakalega endurkomu KR og nagandi spennu á lokakaflanum.

Skemmst er frá því að segja að Þór tók leikinn strax í sínar hendur. KR-ingar voru einfaldlega slappir og áhugalitlir í byrjun og skot Þórsara rötuðu flest í körfuna. Eftir fyrsta leikhlutann munaði strax sextán stigum og staðan var 30:14. Þór hélt beittari KR-ingum vel frá sér í öðrum leikhlutanum en gestirnir virtust eitthvað vera að hressast. KR minnkaði muninn fljótlega í ellefu stig en þá fór Þórsvélin aftur í gang. Hver karfan á fætur annarri kom hjá Þór eftir stuld á bolta og voru þeir orðnir sex í hálfleik. Bilið jókst á ný og í hálfleik var staðan 66:42. Já KR fékk á sig 66 stig í fyrri hálfleik.

Leiðin gat bara legið upp á við hjá Vesturbæingum í seinni hálfleiknum og sáu þeir sóma sinn í að berja hressilega frá sér. Áður en varði var munurinn kominn niður í tíu stig, 70:60, og KR var að skila öllu ofan í körfuna. Munurinn varð minnstur sjö stig en Þór hélt haus út leikhlutann og opnaði bilið aftur. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 88:75 og gríðarleg spenna í leiknum.

Þór var með leikinn í höndum sér langt fram að lokaflautinu en á endasprettinum fór allt í vaskinn og KR gekk á lagið. Munurinn var allt í einu orðinn þrjú stig og nóg eftir. Brynjar Þór hefði svo getað jafnað með þrist sem ekki fór ofan í. Þór klúðraði sinni sókn og Micael Crayon minnkaði muninn í eitt stig, 101:100. Þór var áfram í basli en kom sér þó á vítalínuna í lokasókn sinni. Júlíus Orri Ágústsson setti annað vítið ofan í og KR fékk þrettán sekúndur til að tryggja sér sigur. Þeir lögðu traust sitt á Brynjar Þór Björnsson, sem tók þriggja stiga skot. Það fór ekki ofan í og Þór fagnaði naumum sigri, 102:100.

Þór fer upp um eitt sæti með sigrinum. Liðið er með tíu stig ásamt Grindavík og Val. Valur er í fallsæti með verstan innbyrðisárangur liðanna þriggja.

Þór Akureyri - KR 102:100

Höllin Ak, Úrvalsdeild karla, 27. janúar 2020.

Gangur leiksins:: 8:3, 13:8, 24:12, 30:14, 33:20, 40:27, 53:36, 66:42, 68:51, 72:62, 80:73, 88:75, 93:78, 95:80, 101:93, 102:100.

Þór Akureyri: Hansel Giovanny Atencia Suarez 31, Jamal Marcel Palmer 21/6 fráköst, Pablo Hernandez Montenegro 13/6 fráköst, Terrence Christopher Motley 13/10 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 13/4 fráköst/5 stoðsendingar, Mantas Virbalas 7/6 fráköst, Kolbeinn Fannar Gíslason 2, Ragnar Ágústsson 2.

Fráköst: 30 í vörn, 6 í sókn.

KR: Brynjar Þór Björnsson 26, Matthías Orri Sigurðarson 18/6 fráköst/5 stoðsendingar, Michael Craion 17/13 fráköst/7 stoðsendingar, Jakob Örn Sigurðarson 13, Helgi Már Magnússon 12/10 fráköst, Kristófer Acox 10, Þorvaldur Orri Árnason 3, Benedikt Lárusson 1.

Fráköst: 27 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Friðrik Árnason, Sigurbaldur Frímannsson.

Áhorfendur: 325

Þór Ak. 102:100 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert