„Þórsarar voru betri en við í dag“

Helgi Már í baráttunni í kvöld.
Helgi Már í baráttunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Helgi Már Magnússon var hinn rólegasti eftir að lið hans, KR, hafði tapað fyrir Þór á Akureyri í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Blaðamaður náði tali af Helga þar sem hann reyndi að teygja á eftir leik. Hann hélt því fram að hann þyrfti mest á því að halda. Annars sagði Helgi þetta um leikinn:

„Þetta var erfiður leikur og við vorum í bölvuðu basli með Þórsara. Við réðum eiginlega ekkert við þá í fyrri hálfleiknum. Þeir hlupu í bakið á okkur og við vorum illa skipulagðir. Við gerum hins vegar vel að gefa þeim leik í seinni hálfleik. Þá náðum við nokkrum góðum skorpum en gerðum ekki nóg til að vinna leikinn. Þórsararnir voru bara flottir og unnu fyllilega verðskuldað.“

Það var erfitt hjá ykkur. Þið voruð bara átta á skýrslu. Það vantar sterka pósta og Þór keyrði á miklum hraða lengstum.

„Það þarf enginn að vorkenna okkur út af þessu. Staðan var bara svona og við þurftum bara að díla við það. Það var samt óþarfi að leyfa þeim að hlaupa yfir okkur.“

Staðan var 66:42 í hálfleik og útlitið dökkt. Þriðji leikhluti var góður hjá ykkur og munurinn fór niður í sjö stig. Þór náði svo aftur að auka bilið og var með leikinn alveg fram á lokaáhlaup ykkar. Þið höfðuð greinilega alltaf trú á að þið gætuð hrifsað sigurinn.

„Já, við höfum spilað það marga leiki og erum með góða leikmenn, þannig að við þekkjum allar aðstæður. Við vorum alltaf inni í þessum leik þótt munurinn væri mikill. Því miður þá höfðum við ekki orkuna í að klára leikinn en Þórsarar voru betri en við í dag. Þeir voru helvíti flottir. Hansel og Jamal voru t.d. hrikalega öflugir.“

Það má telja með ólíkindum og til marks um seigluna í KR-liðinu að í lokaskotinu hefðuð þið getað hirt sigurinn.

„Við vorum kannski að einblína of mikið á þriggja stiga skotið. Með tvisti hefðum við jafnað og farið í framlengingu. Mér hefði liðið mjög vel með það. Við vorum með byr í seglin og ég fann alveg að Þórsarar voru orðnir stífir og stressaðir, eðlilega. Þeir hins vegar spiluðu flotta vörn og lokuðu þannig leiknum. Við þurftum að fara í erfitt örvæntingarskot sem datt ekki, því miður,“ sagði höfðinginn mikli að lokum.

mbl.is